au

Ómar Ragnarsson og köllun hans til ÍSLANDS

Inngangur:Greinargerð þessi er tilraun mín til að staðsetja Ómar Ragnarsson í þjóðarsál okkar íslendinga. Ómar hefur verið opinber skemmtikrafur og tónlistarmaður í um fimmtíu ár og er jafnaframt þekktasti  fréttamaður landsins. Þann 26. september síðastliðinn opinberaði Ómar vilja sinn á fréttamannafundi, að hann ætlaði að helga sig umhverfismálum. Að hann sé umhverfissinni hefur ekki farið fram hjá neinum í þjóðfélaginu og hefur komið í gegnum kvikmyndun hans og upplýsingar þær sem hann hefur unnið og sýnt alþjóð um nokkurn tíma. Ómar undirbjó sig vel og mætti í tíma fyrir uppfyllingu Hálslóns, með sómabátinn sinn Örkina. Örkin hans Ómars er sennilega stærsti bátur landsins í dag, a.m.k. í hjörtum okkar Íslendinga. Hann minnir óneytanlega á Örkina hans Nóa gamla í biblíunni, þar sem hann bjargar lífi manna og dýra í náttúrunni áður en syndaflóðið skellur á. Er Ómar því ekki táknrænn fyrir fullkomleika mannsins í náttúrunni, eða hina skynsömu mannveru!        Skoðum aðeins sjálfstæðisbaráttu Jóns Sigurðssonar, sem oft er kallaður sonur Íslands. Við sjáum Jón fyrir okkur standa upp á þjóðfundinum í Danmörku árið 1851 og segja; “Vér mótmælum allir”!  Jón er í dag söguleg eign okkar íslendinga eins og Halldór Kiljan Laxness og e.t.v. Ómar Ragnarsson líka.  Jón Sigurðsson barðist fyrir sjálfstæði íslensku þjóðarsálarinnar frá Dönum og sjálfstæði Íslands. Er Ómar okkar ekki að gera það sama í dag? Fólkið hrópaði „Stoppum stífluna.“ þegar það kom á fund Ómars á Lækjartorgi þann 26. september síðastliðinn. Alls komu um 12.000 manns á þessan fund. Öfl mannskepnunnar eru flókin þ.e.mannlegt óeðli og eðli í náttúrunni. Hvort á valdið að stjórna eða hinn skynsama mannvera?Á okkar tímum erum við komin nokkuð frá náttúrunni í huga okkar, en Ómar kafar sjálfur inn í náttúruna á bátnum sínum, þegar hann ferðast um Hálslón og tekur sýni m.a. plöntur, jarðveg, sand og steina, til þess að fullvissa sig um að eitthvað sitji eftir fyrir komandi kynslóðir. Það hefur hann einnig gert þegar hann (á kostnað ríkisins) kvikmyndaði og framleiddi heimildamyndir um virkjanir og þjóðgarða eins og Á meðan land byggist og  In Memoriam. Ómar rekur í dag heimasíðuna hugmyndaflug.is, eina flugvél TF-FRU og um sjö eldri bíla sem hann sefur í og keyrir m.a.um Kárahnjúkasvæðið þegar þörf krefur.       Ómar birtist í morgunblaðsgreinum sem þjóðhetja og síðan sem hreinlega galin persóna. Ekki næ égí þessari stuttu greinargerð að greina frá nema nokkrum morgunblaðsgreinum, en til þess hef ég valið ákveðið tímabil 16. – 28. september árið 2006. Höfundar morgunblaðsgreinanna eru flestir þekktir rithöfundar, stjórnmálamenn og listafólk. Þannig birtist menningin í gegnum skrif þeirra. Einnig skrifa fréttamenn Morgunblaðsins blaðagreinar á tímabilinu og jafnvel þar birtist menningin.       Skoðum fyrst kynningarblað Ómars sem kom út með Morgunblaðinu þann 24. september síðastliðinn. Síðan munu nokkrar morgunblaðsgreinar vera skoðaðar út frá menningarhugtakinu og greind mikilvæg atriði sem sýna okkur hvernig menningin er að þróast á ýmsan hátt í þessum blaðagreinum.   Íslands Þúsund Ár; kynningarblað Ómars Ragnarssonar:Fyrsti kafli blaðsins heitir: Sigríður í Brattholti – ákall um þjóðarsátt. Þarna notar Ómar óspart tungumálið og söguþekkingu sína. Minnist hann á að Sigríði hafi tekist um miðja síðustu öld að stöðva virkjun á frægasta fossi Íslands Gullfossi. Afrek hennar birtist einnig í að hún gekk alla leið til Reykjavíkur til að leggja áherslu á mikilvægi báráttu sinnar. Þetta var hennar aðferð þá. þróun blaðamarkaðarins var ekki kominn langt á þessum tíma eða um 1940. Dagblöð stækkuðu ekki fyrr en um 1960 - 1970, t.d. Vísir og Dagblaðið. Einnig nokkur flokksblöð. Nú er kafað í hugmyndir og hugsunargang einstaklinganna í þjóðfélaginu með greinaskrifum einstaklinga og slíkt nýtir Ómar sér óspart, þ.e. fjórða valdið.  Fjórða valdið nefnir nánast enginn í dag þó það sé til staðar í þjóðfélagsumræðunni. Ég vil því ekki draga úr mikilvægi þess í greinargerð þessari. Ómar fjallar um valdnýðslu og að ekki sé lengur lýðræði í lýðræðisþjóðfélaginu! Hann vill að Kárahnjúkasvæðið sé sett á heimsminjaskrá Unesco sem ómetanleg náttúruperla.      Viðeigandi er að minnast á orð Giambattista Vico; „In providing for this property God has so ordained and disposed human institutions that men, having fallen from complete justice by original sin, and while intending almost always to do something quite different and often quite the contrary ─ so that for private utility they would live alone like wild beasts ─  have been led by this same utility and along the aforesaid different and countrary paths to live like men in justice and to keep them selves in society and thus to observe their social nature.“[1]  Allir einstaklingar eru mismunandi og mega taka sína ákvörðun sjálfir í náttúrunni, svo fremi sem það skaðar ekki aðra einstaklinga og náttúruna sjálfa. Kant leitaði eftir kerfi hreinna ástæðna! Slíkt er alltaf  nauðsynlegt og hefur Ómar án efa góða þekkingu á heimspeki og fræðunum orðinn 66 ára gamall og fréttamaður til margra ára. Einnig er minnst á heimildamynd Ómars „Á meðan land byggist“, þar sem hann setur fram rök um að jarðvarmavirkjanir séu heppilegri kostur en vatnsaflsvirkjanir og að það verði minni óafturkræf umhverfisáhrif og engin aurug fljót setji svip sinn á landið um ókomna tíð. Nefnd er bók Ómars „Kárahnjúkar - með og á móti.“[2] Þar leitast hann við að sýna valdhöfum landsins fram á báðar hliðar málsins, með og á móti Kárahnúkavirkjun. Hann vísar þar í söguleg orð Bjarna Benediktssonar, Gjör rétt – þol ei órétt. Þarna birtast því söguleg orð áhrifamanns í íslensku þjóðfélagi, sem fela í sér grundvöll lýðræðisins sjálfs. Kannski þarf að skerpa enn meira á þessu orði lýðræði í íslensku stjórnarskránni? Ef til vill eru lögin okkar ekki eins skýr og þau voru fyrrihluta síðustu aldar. Erum við að fjarlægjast stjórnarskrárlögin?       Einnig koma í kynningarblaðinu fram sterk orð Ómars, um að rétta þurfi af slagsíðu á upplýsingamiðlun og að hún eigi ekki að birtast sem hlutdræg andstaða í lýðræðisríki. Hann segir að honum finnist óþolandi að standa bara hjá og gera ekki neitt þegar svo mikið er í húfi, þ.e. eyðilegging á náttúrulegum auðæfum við Kárahnjúka. Hann hefur því viljað reyna að hreyfa valdhöfunum með útgáfu á Íslands Þúsund Ár kynningarblaðinu.      Kannski er fræðaheimurinn hlutdrægur eftir allt í svona viðmiklum málum þar sem tekist er á um völd? Slíkt kom a.m.k. fram í fræga Hannesarmálinu sem er svo vel reifað í bókinni Fortíðardraumar, eftir Sigurð Gylfa Magnússon doktor í sagnfræði, en hann hefur einbeitt sér að einsögurannsóknum síðari ár. Sigurður Gylfi lýsir í bók sinni, hvernig fræðimenn sáttu hjá og stigu nánast ekkert fram með Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni stjórnmála- og fræðimanni. Er hér um endurtekningu að ræða?  Einnig vil ég minnast á bókina Ferðalok sem er eftir Jón Karl Helgason fræðibókahöfundur, skáldsagna- og/eða smásagnahöfundur, einnig þýðandi. Jón Karl skrifa á baksíðu bókarinnar sinnar„Auk þess að gaumgæfa innihaldið í kistu Jónasar sýnir höfundur fram á hvernig beinamálið snerist öðrum þræði um þjóðernishugmyndir, pólitík, skáldlegan eignarrétt og hagnýtingu á tákntænu og menningarlegu auðmagni“[3]. Þarna sjáum við sömu atriði speglast í dag í baráttu Ómars því þjóðin á Ómar í dag og er hér því hafinn upp skáldlegur eignaréttur á Ómari ásamt hagnýtingu á táknrænu og menningarlegur auðmagni sem birtist greinilega í blaðagreinunum hér á eftir.Kannski verður rifist um Ómar Ragnarsson líka  í framtíðinni. Hver á nú Ómar, hann sjálfur eða þjóðin?  Skoðum nú nokkrar aðsendar blaðagreinar sem birtust í Morgunblaðinu á tímabilinu.  Greinaskrif í Morgunblaðinu 16 - 28. september, 2006. 16. september, 2006. Morgunblaðsgrein „Yfir síðustu forvöð“ eftir Hallgrím Helgason rithöfund: Þar segir hann að ekkert hafi orðið til uppi á hálendi Íslands, nema kannski eitt ljóð eftir Jónas Hallgrímsson og leikrit eftir Jóhann Sigurjónsson. Þannig birtist menningin okkur í grein hans. Þar fjallar hann einnig um hálendið og segir það vera gervilega rómantík borgarbarnanna. Náttúrudýrkun sé tilbúningur einn. Hann nær þó að skilja mikilvægi málsins að lokum og veltir m.a. fyrir sér spurningunni „Var Ísland ekki tjáningarfrjálst og opið lýðræðisríki?“[4] Síðan setur hann fram; „Loks las maður svo Draumalandið og gat ekki annað en tekið undir snjalla framsetningu Andra Snæs. Stóriðjustefnan er hóriðjustefna.“[5] Hann vitnar einnig í hnefaleikamanninn Mike Tyson og segir valdhafann hlaupa til fyrir álkóngana. Íslenska hljómsveitin Sigurrós hafi einnig fegnið logn við fjallið Snæfell fyrir austan og spilað.     22. september, 2006. Morgunblaðsgrein „Lýsir yfir andsöðu sinni við Kárahjúkavirkjun“ eftir Rúnar Pálmason fréttamann Morgunblaðsins. Þar segir hann að Ómar líki sér við hnefaleikamann. Bubbi Borteins flutti lag, harða ádeilu á Kárahnjúkavirkjun á fundinum. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti lýðveldisins var einnig stödd þarna og birtist landsmönnum aftur og nú sem tákn um sameiningu þjóðarinnar. Þetta hlutverk þekkir Vigdís og hefur fundið hér þörf til að stíga fram með Ómari. Einnig er ritað í greininnií, að taka slaginn og leggja allt í sölurnar.  22. september, 2006. Morgunblaðsgrein „Þjóðhetjan Ómar Ragnarsson “ eftir Stefán Jón Hafstein borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Stefán reifar sögufrægan fund Ómars og segir hann vera kunnasta fréttamann þjóðarinnar. Segir fundinn vera ákall fyrir ókomnar kynslóðir íslendinga. Einnig að það sé dýrt að stöðva uppfyllingu Hálslóns og að þjóðarsátt Ómar sé sársaukafull og dýr. Tillaga Ómars sé samt djörf og vel þess virði að skoða. Segir Stefán Jón að Ómar hafi sagt sig frá starfi sínu í nafni sannleikans (Ómar hóf reyndar störf aftur eftir hlé frá störfum þann 16. október). Í lok greinar sinnar hvetur hann íslendinga að standa saman sem þjóð og skoða grein Ómars Íslands þúsund ár. 25. september, 2006. Morgunblaðsgrein „Þjóðhetjan fundin“ eftir Steinunni Sigurðardóttur rithöfnd. Hún spyr okkur hvaðan þessi óþrjótandi kraftur komi, sem býr í Ómari. Segir frá því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra og Geir H. Haarde forsætisráðherra hafi þekkst boð Ómars um að skoða með honum Kárahnjúkasvæðið. Minnist Steinunn einnig á að forystufólk í menningarlífi Íslendinga hafi barist með Ómari t.d. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands og Björk Guðmundsdóttir sem er heimsþekkt söngkona. Steinunn skrifar einnig um þjóðarsátt Ómars og bauð okkur öllum að taka þátt í á örlagastundu. Þar segir hún; „þessi skarpgreindi og úrræðagóði fréttamaður hefur yfirburðaþekkingu á íslensku landslagi og náttúru.“[6] 27. september, 2006. Morgunblaðsgrein „Bardaginn er aðeins hálfnaður“ eftir Andra Karl blaðamann hjá Morgunblaðinu. Lýsir Andri Karl hvernig um 12000 manns gengu gegn Kárahnjúkavirkjun daginn áður. Líkir Andri þessu við þann fjölda sem hópast ár hvert í miðbæ Reykjavíkur á kvennafrídaginum. Lýsir hann hvernig fólk bar kyndla og hvít bönd sem eru tákn um samhug fólksins. Minnist hann á orð Ómars um að ekki sé langt til alþingiskosninga. Einnig að aðrar göngur hafi verið víðar á landinu t.d. Akureyri, Ísafirði og Egilsstöðum. Í greininni er einnig minnst stuttlega á að nú verði fyllt á Hálslón á morgun, þann 28. september. 28. september, 2006. Morgunblaðsgrein „Sorgleg viðbrögð“ eftir Illuga Jökulsson rithöfund.Minnist Illugu á Jón Sigurðsson formann Framsóknarflokksins og hve sorgleg viðbrögð hans hafi verið við þjóðarsáttartillögu Ómar. Styður Illugi við tillögu Ómars og segir hana vera eina þá bestu sem hann hafi séð til þessa. Geir H. Haarde sendi ekki frá sér neina tilkynningu vegna þessarar sáttatillögu Ómars. Illugi segir einnig „Því það er mála sannast að verði af þessu stórslysi mun orðstír ekki bara Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddssonar fara fyrir lítið í sögubókum framtíðarinnar, heldur líka orðstír þeirra Jóns Sigurðssonar og Geirs H. Haarde.“[7] 28. september, 2006. Morgunblaðsgrein; daglegt líf, vísnahornið „Af Kárahnjúkum“ undir pebl@mbl.is. Þar birtist vísa eftir Ólaf Auðunsson í tilefni mótmæla gærdagsins:

„Förgum ekki fögrum stað,  Forðumst sögu Rómar.  Græðum Ísland geymum það,Göngum fyrir Ómar“[8]  Niðurstöður.Skilaboð Ómars til kjósenda og valdhafa eru afar skýr;  þjóðarsálin var slegin niður í sjöundu lotu, en  málin skýrast betur við næstu alþingiskosningar. Draumalandið var stofnað með þessum hrópandi köllum! Þjóðarsálin var og er enn að springa, ef svo má að orði komast! Umræðan í þjóðfélaginu flaug og flýgur um með Ómari! Menningin flaug um og flýgur áfram um með Ómari og mörg tákn speglast í þessum morgunblaðsgreinum eins og ég hef hér leitast við að benda á. Þjóðin þjappast nú saman á þessari örlagastundu og aðdáunarvert er að sjá hversu einstaklingurinn Ómar Ragnarsson hefur áorkaðu og mun áorka áfram í framtíðinni. Það verður spenndandi að fylgjast með hverju fótspori sem hann markar í sögu og menningu okkar Íslendinga hér eftir og efast ég ekki um að margir fylgja honum eftir þó ekki sé nema bara í huganum. Þjóðarsál okkar hefur mótast af Ómari! Hann hefur meitlað nafn sitt í minnisvarðann fyrirfram. Við munum sannarlega reisa honum stórt minnismerki á hálendinu í framtíðinni.      Með kveðju  

Sólveig Dagmar Þórisdóttir

    

[1]  Vico, Giambattista. 1968. „The New Science of Giambattista Vico. Þýðandi: Thomas Goddard

    Bergin og Max Harold Fisch. Ithaca, London: Conrell University Press.

[2]  „Íslands Þúsund Ár“ kynningarblað, Morgunblaðið 24. september 2006,

[3]   Jón Karl Helgason, Ferðalok. Skýrsla handa akademíu (Reykjavík, 2003)

[4]   http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1103385

[5]   http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1103385

[6]  http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1004853

[7]  http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1105494

[8] http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1105523


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Skemmtileg greining hjá þér - gleðilega páska

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 8.4.2007 kl. 13:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband