au

Coventry - eða Ísland? Er eignaréttur virtur á stolnum steindum gluggum?

Heimildamyndin "Saga af stríði og stolnum gersemum", e. Hjálmtý Heiðdal var sýnd á RÚV í kvöld 31. október 2010. Málið um steindu gluggana frá Coventry hef ég þekkt í um fimmtán ár. Sem leiðsögumaður hef ég komið með fjöldann allan af ferðamönnum um Akureyri og sagt m.a. frá steinda glugganum frá Coventry í Englandi. Einnig fleiri gluggum frá Coventry sem eru til í Reykjavík. Sagt frá því hvernig þeir bárust hingað til landsins vegna stríðs og óhamingju í Seinni - heimstyrjöldinni í Englandi. Margt fór í gegnum hugann þegar heimildarmyndinni lauk í kvöld.

Ákvað ég því að setja fram nokkrar spurningar og biðja um svör frá sem flestum:

1. Heimildarmyndin er sannarlega unnin af Akureyringi sem er eðlilega litaður af sínum uppruna og staðhæfir mikið um ágæti Akureyrar og ráðamenn þar. Hvernig yrði efnisumfjöllun ef Breti myndi vinna slíka heimildarmynd um sömu steindu glugga? Hvernig myndi efnisumfjöllun vera ef einstaklingur sem ekki er alinn upp á Akureyri og byggi ekki þar myndi gera heimildarmynd um sama efni?

2. Myndum við skila gluggunum ef þeir hefðu verið í danskri kirkju, segjum í Kaupmannahöfn á stríðsárunum - gluggarnir numdir þaðan á brott og settir í ólöglega sölu og seldir úr landi til Íslands. Settir síðan upp m.a. í Akureyrarkirkju og það af tilviljun einni. Síðan fundnir hér heima og engin bæði um þá í Danmörku?

3. Af hverju skiluðu Danir okkur handritunum? Af hverju skilum við ekki Bretum steindum gluggum sínum fyrst Danir skiluðu handritunum? Hver er munurinn á þessum tveimur eignarréttarmálum?

4. Af hverju söng kór við gluggana í Akureyrarkirkju þegar gestirnir frá Coventry komu inn í kirkjuna? Var kórinn tákn um varnarskjöld um steindu gluggana sem eru stolnir eða var kórinn tákn um upphafningu á eignarhaldi Akureyringa á steindum gluggum sem eru lagalega í eigu Breta skv. því sem Sigurður Líndal lagaprófessor nefndi í myndinni? Eða var kórinn kór Guðs, tákn um guðsblessun eins og höfundur heimildarmyndarinnar vildi gefa í skyn?

5. Getur verið að heimildarmyndin sé unnin núna vegna þess að Bretar eiga í deilum við okkur vegna Icesave sem vissulega veikir vináttu þjóðanna?

6. Alþjóðleg lög um þjóðargersemar og eignarrétt á þeim eru ekki reifuð og rökrædd á nokkurn hátt í heimildarmyndinni. Unesco vinnur eftir slíkum lögum. Er unnið eftir alþjóðlegum lögum þegar metið er hvort skila eigi steindu gluggunum frá Coventry til Englands? Telur þú að Ísland mundi þurfa að leysa þetta mál eftir alþjóðlegum lögum til enda? Er eðlilegt að örfáum kirkjunnar mönnum sé falið vald til að merkja eignarrétt á þjóðargersemum með guðsblessun?

 

Þætti vænt um að fá skýr og rökstudd svör við spurningum mínum.

Með kærri kveðju til ykkar allra.

Sólveig Dagmar Þórisdóttir, MA. hagnýtur menningarmiðlari


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Vilhjálmsson

Góður pistill - deildi með þér tilfinningunni í lið 4 þegar ég horfði á þáttinn.

Einar Vilhjálmsson, 1.11.2010 kl. 02:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband